Frank Rijkaard, stjóri Barcelona, hældi Eiði Smára Guðjohnsen mjög fyrir frammistöðu sína með Barcelona gegn Valencia í gær.
Eiður skoraði sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu er hann kom Börsungum í 3-0 í síðari hálfleik.
„Hann átti frábæran leik," sagði Rijkaard. „Hann var alltaf öruggur á boltanum, gaf góðar sendingar og færði ró yfir leik liðsins. Hann var líka duglegur að skapa hættur og kórónaði frammistöðu sína með marki."
Rijkaard sagði einnig að lykillinn að sigrinum hafi verið að skora snemma en Samuel Eto'o skoraði tvívegis í fyrri hálfleik.