Enski boltinn

Leikmenn Chelsea tileinka Terry sigurinn

Frank Lampard lyftir deildabikarnum hátt á loft í dag.
Frank Lampard lyftir deildabikarnum hátt á loft í dag. MYND/Getty

Hugur leikmanna Chelsea er hjá John Terry og tileinka þeir fyrirliða sínum sigurinn, en hann var borinn af velli hálf meðvitundarlaus í úrslitaleik deildabikarsins gegn Arsenal í dag. Jose Mourinho hrósaði liði Arsenal í hástert en sagði betra liðið hafa unnið leikinn.

"Þetta er mjög skrítinn dagur fyrir okkur. Við unnum bikarinn og erum vissulega glaðir en á sama tíma er leiðinlegt að fyrirliði okkar skuli ekki getað tekið þátt í fögnuðinum með okkur. Þetta er sérstaklega erfitt fyrir mig því ég var innan við metra í burtu þegar slysið varð. Þetta var skelfilegt," sagði markaskorarinn Didier Drogba.

Jose Mourinho var fullur lotningar í garð leikmanna Arsenal. "Að mínu mati spiluðu þessir ungu strákar mjög góðan leik. Þetta lið vann Liverpool, Everton og Tottenham og gerði okkur erfitt fyrir í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik var þetta allt annað, við vorum miklu betri og áttum sigurinn skilinn," sagði Mourinho en bætti við að slagsmálin undir lok leiksins hefðu verið óþörf.

"Ég veit ekki hvað gerðist en þetta var mikil synd. Það var ljótt að sjá hvernig leikmenn höguðu sér," sagði Mourinho.

Frank Lampard, sem tók við bikarnum í fjarveru Terry, sagði leikmenn tileinka fyrirliða sínum sigurinn. "Þetta var fyrir hann. Við munum fara með bikarinn til hans á sjúkrahúsið um leið og tækifæri gefst," sagði Lampard og lýsti aðdáun sinni yfir Didier Drogba. "Hann er einfaldlega bestur í heimi í augnablikinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×