Innlent

Erlendir verkamenn fái upplýsingar um réttindi sín

MYND/RJ

Tryggja verður að erlendir verkamenn á Íslandi fái nægar upplýsingar um réttindi sín og skyldur við komuna til landsins. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu starfshóps á vegum félagsmálaráðherra sem fjallaði um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Í skýrslunni eru lagðar fram fjölmargar tillögur hvernig bæta megi starfskjör útlendinga hér á landi og yfirsýn stjórnvalda yfir málaflokknum.

Fram kemur í skýrslunni að starfshópinum þyki nauðsynlegt að efla þurfi samvinnu þeirra opinberu stofnana sem koma að þessu málaflokki. Þannig megi auðvelda stjórnvöldum að hafa yfirsýn yfir fjölda erlendra ríkisborgara sem starfa á íslenskum vinnumarkaði.

Þá leggur nefndin til að gefin verði út tímabundin skattkort annars vegar í samræmi við gildistíma EES-dvalarleyfis og hins vegar í samræmi við gildistíma atvinnuleysi eftir því sem við á. Jafnframt er lagt til að Útlendingastofa geti framvegis sótt um kennitölu vegna EES-borgara til Þjóðskrá hafi atvinnurekandi eða annar lögaðili ekki sinnt því.

Starfshópurinn leggur ennfremur áherslu á að erlendir aðilar geti á auðveldan hátt nálgast allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að þeir geti starfað með lögmætum hætti hafi þeir hug á að hefja atvinnustarfsemi hér á landi. Einnig að strax við komuna til landsins fái erlendir verkamenn allar upplýsingar um réttindi sín og skyldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×