Enski boltinn

Adebayor: Ég gerði ekkert rangt

Emmanuel Adebayor er vikið af velli í leiknum í gær.
Emmanuel Adebayor er vikið af velli í leiknum í gær. MYND/Getty
Emmanuel Adebayor, framherji Arsenal, kveðst ekki skilja af hverju hann fékk að líta rauða spjaldið fyrir þátt sinn í ryskingunum sem áttu sér stað undir lok bikarúslitaleiksins gegn Chelsea í gær. Adebayor segist ekki hafa gert neitt rangt.

Adebayor kom inn á í síðari hálfleik og hafði ekki verið lengi inni á vellinum þegar Kolo Toure og John Obi Mikel lenti saman með þeim afleiðingum að allir sem á vellinum voru, og fleiri til, lentu í handalögmálum. Eftir að leikmenn höfðu róast fengu Mikel og Toure rauða spjaldið, rétt eins Adebayor sem þó virtist ekki hafa látið fara mikið fyrir sér í látunum. Adebayor brást hinn versti við spjaldinu og neitaði í fyrstu að fara af velli.

"Í svona úrslitaleik viltu ekki yfirgefa félaga þína. Ég trúði ekki að ég hefði verið rekinn af velli. Ég ætlaði aldrei að ráðast á dómarann eða neitt slíkt, ég vildi bara spyrja hann af hverju hann var að reka mig af velli."

"Þetta gerðist allt svo hratt. Ég sá bara að leikmenn voru að ýta hvor öðrum og ég kom inn í þvöguna til að stía mönnum í sundur. Ég held að Wayne Bridge hafi komið að mér og ég man ekki hvort ég ýtti honum eða ekki. Á svona stundu er allt á fleygiferð í hausnum á manni og ef maður sér einn leikmann Chelsea fyrir aftan sig býst maður jafnvel við því að hann slái til manns."

"Dómarinn sagði að ég hefði slegið einhvern, en ég man ekki eftir því. Ég var bara að reyna að stöðva þessa uppákomu. Rauða spjaldið var ekki sanngjarnt, ég gerði ekkert rangt," sagði Adebayor þegar hann skýrði sína hlið á málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×