Enski boltinn

Meistaradeildarsigurinn hafði áhrif á Ronaldo

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ronaldo verður áfram hjá United.
Ronaldo verður áfram hjá United.

Portúgalski vægmaðurinn Cristiano Ronaldo segir að sigur Manchester United í Meistaradeild Evrópu hafi ýtt undir vilja hans til að ganga til liðs við Real Madrid.

„Ég vildi aldrei fara gegn vilja Manchester United og ég ætla að segja frá nokkru sem ég hef engum sagt. Ef við hefðum ekki orðið Evrópumeistarar hefði ég líklega ekki einu sinni íhugað að fara til Madrid," sagði Ronaldo.

„Eftir að við unnum Meistaradeildina þá fór ég að hugsa mín mál. Á fimm árum hjá United hef ég hjálpað liðinu að vinna allt sem hægt er að vinna hérna," sagði Ronaldo í viðtali við portúgalskt dagblað.

„Við höfum unnið úrvalsdeildina tvisvar og ég hef unnið fullt af einstaklingsverðlaunum. Þar á meðal gullskóinn í úrvalsdeildinni, Meistaradeildinni og í Evrópu. Mér fannst ég þurfa nýjar áskoranir."

Ronaldo segir að það hafi verið sín sök að málefni sín hafi fengið eins mikla umfjöllun í sumar og raun ber vitni. „Ég ber alla ábyrgð á þeirri umræðu sem var í gangi en það var aldri ætlun mín að skapa illindi milli þessara tveggja félaga," sagði Ronaldo.

„Ég vissi af áhuga Real Madrid og um tíma vildi ég að Manchester United tæki tilboði þeirra. Ég taldi að þetta gæti verið rétti tímapunkturinn. Tækifærið til að vera í klukkutíma flug-fjarlægð frá móður minni var spennandi. En nú vill ég að þessu ljúki."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×