Erlent

Rússar setja vígvæðingu í forgang

Óli Tynes skrifar

Forseti Rússlands segir að það sé forgangsverkefni að stórefla rússneska herinn. Lögð verður megináhersla á að búa hann nýjustu og bestu vopnum sem til eru.

Dmitry Medvedev sagði að þótt stríðið í Georgíu hefði unnist fljótt og auðveldlega hefði það leitt í ljós ýmis vandamál í vopnum og vélbúnaði sem yrði að laga strax.

Stjórnvöld í Rússlandi líta þá það sem mikilvægan þátt í endurreisn þjóðarinnar að hún eignist nýtískulegan og öflugan her.

Forveri Medvedevs Valdimir Putin sem nú er forsætisráðherra var raunar löngu byrjaður að endurreisa heraflann sem var mjög vanræktur um árabil eftir fall Sovétríkjanna.

Undir forsæti Putins hófu Rússar heræfingar erlendis á ný. Meðal annars með því að senda sprengjuflugvélar í eftirlitsferðir á norðurslóðum, eins og Íslendingar hafa orðið varir við.

Fáir efast um að öflugur kafbátafloti Rússa muni fylgja þar á eftir. Rússar eru ekki þeir einu sem hafa dregið lærdóm af stríðinu í Georgíu.

Svíar hafa til dæmis tilkynnt að þeir muni taka stefnu sína í öryggismálum til gagngerðrar endurskoðunar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×