Handbolti

Ísland vann Dormagen í æfingaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur var markahæstur í íslenska liðinu í kvöld ásamt Rúnari Kárasyni.
Guðjón Valur var markahæstur í íslenska liðinu í kvöld ásamt Rúnari Kárasyni. Mynd/Pjetur

Íslenska handboltalandsliðið vann í kvöld sigur á þýska úrvalsdeildarfélaginu Dormagen í æfingaleik ytra, 34-28, eftir að hafa verið með átta marka forystu í hálfleik.

Ísland komst mest í ellefu marka forystu í leiknum en Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var ánægður með framgöngu sinna manna.

„Þetta var öruggt hjá okkur þó svo að við höfum óneitanlega slakað full mikið á síðustu fimmtán mínúturnar. En allir stóðu sig vel og ekki síst ungu strákarnir sem fengu mikið að spila í dag. Það skoruðu allir nema Sverre (Jakobsson) og Diddi (Ingimundur Ingimundarson) sem spiluðu vörn."

Markahæstir í íslenska liðinu voru Rúnar Kárason og Guðjón Valur Sigurðsson með sex mörk hvor. Einar Hólmgeirsson kom næstur með fjögur mörk.

Guðmundur var þjálfari Dormagen frá 1999 til 2001 og sagði að hann og íslenska liðið hafi fengið góðar móttökur í bænum. „Það var gaman að spila á gamla heimavellinum og minningarnar helltust yfir mann," sagði Guðmundur.

Ísland mætir næst þýska landsliðinu í tveimur æfingaleikjum um helgina og segir Guðmundur að það verði erfið verkefni.

„Þetta leggst vel í mig en þetta verður erfitt. Við erum með mikið breytt og ungt lið en við ætlum að gera það sem við getum."

Fyrri leikurinn gegn Þjóðverjum verður klukkan 16.00 á laugardaginn en sá síðari á sunnudaginn klukkan 16.10.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×