Íslenski boltinn

Boltavaktin á öllum leikjum kvöldsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Fimmtándu umferð Landsbankadeildar karla lýkur í kvöld með fjórum leikjum sem verður öllum lýst á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.

Hægt er að fylgjast með öllum leikjunum samtímis á Miðstöð Boltavaktarinnar. Slóðin á hana er visir.is/boltavakt. Það má fylgjast nánar með gangi mála í leikjunum með því að smella á hvern einstakan leik.

Keflavík getur minnkað forskot FH-inga á toppi deildarinnar aftur í þrjú stig með sigri á Skipaskaga í kvöld. Síðast þegar þessi lið mættust þar skoraði Bjarni Guðjónsson eitthvað frægasta mark íslenskrar knattspyrnusögu en hann er nú genginn til liðs við KR.

Keflavík vann síðast 3-2 sigur á HK og hefur ekki tapað í sex leikjum í röð. ÍA hefur hins vegar tapað í sex leikjum í röð í deildinni en í lok síðasta mánaðar tóku þeir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir við starfi þjálfara af Guðjóni Þórðarsyni.

Grindavík tekur á móti Breiðabliki en þegar þessi lið mættust á Kópavogsvelli fyrr í sumar vann Grindavík ótrúlegan 6-3 sigur. Grindvíkingar hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu og unnu síðast 1-0 sigur á Fjölni.

Blikarnir gerðu síðast 1-1 jafntefli við KR og eru nú ellefu stigum á eftir toppliði FH. Grindavík er í áttunda sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Breiðabliki.

Fjölnismenn taka á móti Val en síðarnefnda liðið á nú besta möguleikann af hinum liðunum tíu í deildinni að ógna FH og Keflavík á toppi deildarinnar. Ekkert annað en sigur kemur því til greina hjá Valsmönnum í kvöld.

Fjölnismenn hafa nú tapað þremur leikjum í röð og eru í sjöunda sæti deildarinnar með 21 stig.

Það verður svo fallslagur af bestu gerð á Kópavogsvellinum í kvöld þegar að botnlið HK tekur á móti Fylki.

HK-ingar hafa aðeins fengið fimm stig í sumar og fátt sem virðist geta bjargað liðinu frá falli. Þeir verða því að vinna í kvöld til að halda í þá litlu von sem liðið hefur.

Fylkismenn eru í tíunda sæti deildarinnar með þrettán stig og eins og staðan í deildinni er nú er það langlíklegast til að detta í fallslaginn við ÍA og HK í haust. Ef Fylkir vinnur hins vegar í kvöld verður útlitið orði ansi svart fyrir botnliðin tvö.

Fylkir mætir svo ÍA í næstu umferð og hafa því Árbæingar nú tilvalið tækifæri til að losa sig við falldrauginn að mestu leyti með sigri í þessum tveimur leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×