Enski boltinn

"Jarðýtan" ætlar að trompa Abramovich

Al-Fahim og félagar ætla sér enga meðalmennsku með City
Al-Fahim og félagar ætla sér enga meðalmennsku með City

Dr Sulaiman Al-Fahim, eigandi Manchester City, ætlar að láta verkin tala þegar kemur að því að koma félaginu í fremstu röð í framtíðinni.

Þessi milljarðamæringur frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum lagði fram meira en 100 milljón punda kauptilboð í þá Dimitar Berbatov, David Villa og Mario Gomez í gær, en svo fór að lokum að félagið keypti Brasilíumanninn Robinho frá Real Madrid fyrir 32,5 milljónir punda - hátt í fimm milljarða króna.

Al-Fahim hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að gefa Roman Abramovich, eiganda Chelsea, neitt eftir þegar kemur að því að gera Manchester City að stórveldi í knattspyrnu.

Hann hefur tengsl inn í konungsfjölskylduna í Abu Dhabi, en fjölskyldan er metin á 500 milljarða punda, sem er talsvert meira en þeir 23 milljarðar punda sem Roman Abramovich er metinn á.

"Við höfum mikla möguleika og við viljum leika eftir það sem Abramovich gerði hjá Chelsea. Við þurfum að ná í sterka leikmenn og markaðssetja félagið betur. Við ætlum að koma því á par við Manchester United og enn lengra," sagði Al-Fahim.

"Við viljum að Manchester City geti keppt um alla titla, ekki bara á Englandi, heldur í Evrópukeppni líka," sagði Al-Fahim, sem áður hafði reynt að kaupa Arsenal, Liverpool og Newcastle.

"Mér líður alltaf eins og ég sé jarðýta, jarðýta sem ekur áfram yfir bíla þó þeir séu fyrir. Ef ég fæ hugmynd, verð ég að hrinda henni í framkvæmd," sagði fasteignamógúllinn Al-Fahim í samtali við Sun.

Stefna nýrra eigenda City hefur verið sett á að koma liðinu í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili og því hefur verið fleygt að allt að 500 milljónum punda verði varið til leikmannakaupa til að ná því markmiði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×