Enski boltinn

Ramos ósáttur við félagaskiptagluggann

NordicPhotos/GettyImages

Juande Ramos, stjóri Tottenham, segir að félagaskiptaglugginn á Englandi ætti að lokast fyrir byrjun keppnistímabilsins í ensku úrvalsdeildinni. Hann segir hann hafa truflandi áhrif á lið og leikmenn í deildinni.

Nærtækasta dæmið um þetta er sápuóperan í kring um framherjann Dimitar Berbatov hjá Tottenham, sem gekk í raðir Manchester United á elleftu stundu í gærkvöld - rétt fyrir lokun gluggans.

Berbatov hafði verið orðaður við United vikum og mánuðum saman og sýnt þykir að mál hans hafði slæm áhrif á andrúmsloftið í herbúðum Tottenham, sem hefur gengið afleitlega í upphafi leiktíðar.

"Deildin byrjaði 16. ágúst en glugginn lokast ekki fyrr en 1. september. Það þýðir að liðin þurfa að spila þrjá leiki áður en glugginn lokast og því eru menn sífellt horfandi um öxl á þeim tíma og ná ekki að einbeita sér. Ég myndi vilja að glugginn lokaðist um leið og tímabilið hæfist," sagði Ramos.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×