Enski boltinn

Bolton úr leik - Grétar og Heiðar léku allan leikinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Heiðar Helguson.
Heiðar Helguson.

Það urðu heldur betur óvænt úrslit í 2. umferð ensku deildabikarkeppninnar í kvöld. Bolton tapaði á heimavelli fyrir Northampton 1-2 en Northampton leikur í ensku 2. deildinni (C-deild).

Grétar Rafn Steinsson og Heiðar Helguson voru báðir í byrjunarlið Bolton í leiknum og léku allan leikinn. Gary Cahill fékk að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik og Bolton lék því lengi manni færri. Kevin Nolan minnkaði muninn fyrir Bolton seint í leiknum.

Reading vann 5-1 sigur á Luton. Ívar Ingimarsson kom inn sem varamaður vegna meiðsla á 21. mínútu og þá kom Gylfi Þór Sigurðsson inn sem varamaður snemma í seinni hálfleik.

Jóhannes Karl Guðjónsson lék síðasta hálftímann fyrir Burnley sem vann Oldham 3-0. Stoke lenti í kröppum dansi gegn Cheltenham en náði á endanum 3-2 sigri á útivelli.

Henri Camara skoraði fyrir Wigan í fyrsta sinn síðan 2006 þegar liðið vann 4-0 sigur á Notts County. Camara skoraði tvö mörk í leiknum. Leeds United komst áfram með 4-0 sigri á Crystal Palace.

Middlesbrough átti ekki í vandræðum með Yeovil og vann 5-1 sigur. Cardiff vann Milton Keynes Dons 2-1, Ipswich vann Colchester 2-1, Derby vann Preston 1-0 á útivelli, QPR vann Carlisle 4-0 og Southampton vann Birmingham 2-0.

Nú stendur yfir framlenging í nokkrum leikjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×