Enski boltinn

Krísufundur hjá Tottenham vegna Berbatov

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov, leikmaður Tottenham.
Dimitar Berbatov, leikmaður Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Umboðsmaður Dimitar Berbatov er nú staddur í Lundúnum þar sem hann mun funda með forráðamönnum Tottenham um möguleg félagaskipti leikmannsins til Manchester United.

Þetta hefur fréttastofa BBC eftir heimildum sínum. Umboðsmaðurinn, Emil Danchev, mun hafa hitt bæði Juande Ramos knattspyrnustjóra og Daniel Levy stjórnarformann Tottenham að máli.

Berbatov kom ekki við sögu í leik Tottenham gegn Sunderland um helgina þar sem hann þótti ekki nægilega einbeittur að verkefninu. Því er einnig haldið fram að samband hans við liðsfélaga sína sé slæmt.

Tottenham hefur ekki viljað selja Berbatov á minna en 30 milljónir punda. Sumir enskir fjölmiðlar hafa haldið því fram að forráðamenn félagsins eru frekar tilbúnir að láta hann „rotna" í varaliðinu en að selja hann á minni upphæð en það.

Þrátt fyrir það liggur ekkert tilboð á borðinu í Berbatov, þrátt fyrir áhuga United og tveggja spænskra félaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×