Enski boltinn

Tíu bestu kaupin hjá Sir Alex Ferguson

Elvar Geir Magnússon skrifar
Roy Keane og Peter Schmeichel.
Roy Keane og Peter Schmeichel.

Sir Alex Ferguson hefur keypt marga frábæra leikmenn á þeim 22 árum sem hann hefur verið við stjórnvölinn hjá Manchester United. Sérfræðingar The Sun hafa tekið saman tíu bestu leikmannakaup hans að sínu mati.

Það segir sitt að frábærir leikmenn eins og Mark Hughes, Gary Pallister, Paul Ince, Jaap Stam og Nemanja Vidic komust ekki á þennan lista.

1. Roy Keane - 1993

(3,75 milljónir punda) Bestu kaupin voru á írska miðjumanninum Roy Keane. Þessi mikli baráttujaxl bjó kannski ekki yfir mikilli tækni en var ótrúlegur leiðtogi og drifkraftur. Hann lagði sig alltaf allan fram á þeim fjölmörgu árum sem hann lék í búningi Manchester United.

2. Peter Schmeichel - 1991

(550 þúsund pund) Besti markvörður í sögu United og að margra mati besti markvörður allra tíma. Þessi danski risi var ekki mjög þekktur þegar Ferguson fékk hann en sló svo sannarlega í gegn og lokaði rammanum.

Eric Cantona.

3. Eric Cantona - 1992

(1,2 milljón pund) Átti fimm ógleymanleg ár á Old Trafford. Ótrúlega hæfileikaríkur sóknarmaður og skemmtilegur karakter. Orðspor hans skaðaðist þegar hann tók kung-fu spark á stuðningsmann Crystal Palace en aðdáendur United voru fljótir að fyrirgefa honum.

4. Cristiano Ronaldo - 2003

(12 milljónir punda) Þessi portúgalski töfradrengur var óstöðvandi á síðasta tímabili og hann mun hækka upp þennan lista ef hann heldur uppteknum hætti á þessu. Á stóran þátt í sigri United í úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.

5. Ruud van Nistelrooy - 2001

(19 milljónir punda) Hann fór í illu en hafði þá þegar unnið sér inn sæti í hjarta stuðningsmanna United. Skoraði yfir 150 mörk í búningi félagsins. Í dag er Ferguson að leita að leikmanni svipuðum honum svo hann sér kannski eftir því að hafa sleppt Nistelrooy á sínum tíma.

6. Denis Irwin - 1990

(625 þúsund pund) Þessi írski bakvörður steig vart feilspor og stóð alltaf fyrir sínu. Þá voru aukaspyrnur hans á hinum enda vallarins stórhættulegar.

Ole Gunnar Solskjær.

7. Ole Gunnar Solskjær - 1996

(1,5 milljón pund) Var kannski ekki fastamaður í byrjunarliðinu en reyndist United ansi mikilvægur. Skoraði mörg eftirminnileg mörk eftir að hafa komið af bekknum. Skoraði meðal annars þegar United vann Meistaradeildina 1999.

8. Rio Ferdinand - 2002

(30 milljónir punda) Er kominn í hóp bestu varnarmanna heims. Ótrúlega öflugur og býr yfir leiðtogahæfileikum. Besti varnarmaður United síðan Jaap Stam var í öftustu línu.

9. Steve Bruce - 1987

(800 þúsund pund) Myndaði frábært miðvarðapar með Gary Pallister. Var ekki bara frábær varnarmaður heldur skilaði alltaf nóg af mörkum.

10. Wayne Rooney - 2004

(27 milljónir punda) Hefur átt fjögur frábær ár hjá Manchester United. Með ótrúlegt keppnisskap og leggur sig allan fram. Mætti skora meira en það er ekki hægt að kvarta yfir hans framlagi síðan hann kom frá Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×