Erlent

Svíar endurskoða landvarnir sínar vegna Georgíu

Óli Tynes skrifar
Sænsk Gripen orrustuþota.
Sænsk Gripen orrustuþota.

Svíar ætla að endurskoða herstyrk sinn og viðbúnað vegna stríðsins í Georgíu.

Sten Tolgfors varnarmálaráðherra Svíþjóðar segir í þarlendum fjölmiðlum í dag að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta ákvarðanatöku um framtíðarskipan sænska heraflans.

Ætlunin var að varnaráætlun fyrir árin 2010-2014 yrði tekin í haust. Allt ferlið verði hinsvegar endurskoðað með tilliti til stríðsins í Georgíu.

Það sem Svíar eru ekki síst hugsi yfir er hversu hratt allt gekk fyrir sig. Tolgfors segir að ekki hafi verið um að ræða stóran herafla. Rússar hafi kannski teflt fram 20 þúsund manna liði.

Þeim hafi hinsvegar tekist að brjóta her Georgíu á bak aftur á ótrúlega skömmum tíma.

Svíar hafa frá árinu 2000 lagt litla áherslu á að styrkja her sinn, enda héldu menn þá að komin væri betri tíð með blóm í haga.

Tolgfors segir hinsvegar að með tilliti til nýjustu atburða verði þeir að taka stefnu sína í varnar- og öryggismálum til gagngerrar endurskoðunar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×