Íslenski boltinn

Gunnar: Þorði ekki að líta á klukkuna eftir annað markið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Liðin ganga inn á völlinn í kvöld. Mynd/Pjetur Sigurðsson
Liðin ganga inn á völlinn í kvöld. Mynd/Pjetur Sigurðsson

„Fyrstu mínúturnar voru skrautlegar," sagði Gunnar Sigurðsson, markvörður FH, sem þurfti í fjórgang að sækja boltann í net sitt gegn Aston Villa í kvöld.

„Þegar annað markið kom þá þorði ég ekki að líta við og sjá hvað væri lítið búið af leiknum, maður bara skammaðist sín," sagði Gunnar en eftir sex mínútna leik var enska liðið komið með 2-0 forystu.

„Menn voru mjög spenntir en þegar búið er að flauta leikinn á þá á þetta að fara. Þeir voru búnir að skora þrjú mörk eftir að hafa fengið jafnmörg færi og maður stóð bara þarna eins og hálfviti. Alveg frábær afmælisgjöf eða þannig," sagði Gunnar sem á afmæli í dag.

„Við vorum fínir sóknarlega enda er það ekkert vandamál hjá FH. En stundum þarf maður að byrja aftast og vinna sig fram til að vinna leikina. Við áttum að geta gert miklu betur en þetta."

Liðin mætast aftur eftir tvær vikur á Englandi. „Þeir mæta örugglega ekki með sitt sterkasta lið því þeir eiga deildarleik strax á eftir. Markmiðið verður allavega að gera betur en við gerðum í kvöld," sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×