Handbolti

Svensson: Þurfum að hugsa okkar gang

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomas Svensson, markvörður Svía.
Tomas Svensson, markvörður Svía. Nordic Photos / AFP

Tomas Svensson, markvörður Svía, var vitanlega sár og svekktur eftir leik Íslands og Svíþjóðar í dag.

Ísland vann leikinn, 29-25, og þar með sæti á Ólympíuleikunum á kostnað Svía. Svensson lék fyrri hálfleikinn í dag og stóð sig vel. Í raun hélt hann Svíum inn í leiknum og frammistaða hans gerði það að verkum að staðan var jöfn í hálfleik, 13-13.

„Við þurfum nú að hugsa okkar gang fyrst við komumst ekki á Ólympíuleikana," sagði Svensson. „Ég hef þó enn gaman af þessu þó þetta sé svekkjandi nú en hugsunin er sú að fá nýja markverði fram á sjónarsviðið. Við þurfum að ákveða okkur í haust," sagði Svensson en bæði hann og Gentzel eru nú komnir á síðasta sprett með landsliðinu.

„Við gerðum of miklar kröfur til okkar sjálfra í dag," vildi Svensson meina. „Þeir spiluðu sinn handbolta en þó svo að við séum með betra lið spiluðum við ekki nema á 50-60 prósent getu í dag."

„Þetta er vissulega mikil vonbrigði. Fyrst og fremst þó það að við spiluðum illa í leiknum. Ef við spilum svona höfum við ekkert á Ólympíuleikana að gera. Það er erfitt að þurfa að ná sínu allra besta fram í leik sem þessum," sagði Svensson í samtali við sænska ríkissjónvarpið eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×