Handbolti

Guðmundur staðfestir viðræður við GOG

Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson Mynd/Hari

Danska handboltafélagið GOG hefur sett sig í samband við íslenska landsliðsþjálfarann Guðmund Guðmundsson með það fyrir augum að taka við þjálfun liðsins á næstu leiktíð.

Guðmundur staðfesti þetta í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í dag en danska daglaðið BT greindi fyrst frá þessu í gærkvöld.

Í frétt blaðsins segir að Guðmundur muni taka við liðinu næsta sumar af Ulf Schefvert sem ætlar að taka við kennaliði félagsins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 hafa lið í Þýskalandi einnig horft til Guðmundar í ljósi árangurs hans með íslenska landsliðið á ólympíuleikunum.

Guðmundur segir viðræðurnar við GOG á algerum byrjunarreit og í raun allt of snemmt að tjá sig nokkuð um þær, hann hafi ekki rætt málið af það mikilli alvöru við danska félagið.

Guðmundur segir fulldjúpt í árina tekið með að halda því beinlínis fram að hann verði þjálfari liðsins næsta sumar eins og BT gerir í frétt sinni.

Aðspurður um hvort hann myndi stýra íslenska landsliðinu samhliða þjálfun félagsliðs í Evrópu, sagði Guðmundur að það yrði eitthvað sem hann myndi skoða ef til þess kæmi.

Með GOG leika tveir íslenskir landsliðsmenn, þeir Snorri Steinn Guðjónsson og Ásgeir Hallgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×