Viðskipti innlent

Auður Capital vill ræða um kaup á Sparisjóði Kaupþings

Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður og forstjóri Auðar Capital.
Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður og forstjóri Auðar Capital.

Auður Capital hefur sent formlegt erindi til Fjármálaeftirlitsins og skilanefndar Kaupþings þar sem óskað er eftir viðræðum um kaup á Sparisjóði Kaupþings sem er dótturfélag Kaupþings banka.

Fram kemur í tilkynningu frá Auði Capital að félagið hafi leyfi til að starfa sem verðbréfafyrirtæki og að það sé óháð, með dreifða eignaraðild og öflugt og reynslumikið stjórnendateymi. Fjárhagsstaða Auðar sé sterk enda sé félagið alfarið fjármagnað með eigin fé.

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, segir að Sparisjóður Kaupþings hafi orðið til við kaup Kaupþings á Sparisjóði Önundarfjarðar snemma á öldinni og hann hafi verið í eigu Kaupþings æ síðan. Starfsemi hans sé í Reykjavík.

Kristín segir sparisjóðinn áhugaverðan fjárfestingarkost og forsvarsmenn Auðar telji að fjármálafyrirtæki sem hafi aðrar og heilbrigðari áherslur eigi erindi inn á markaðinn. Auður sé nú verðbréfafyrirtæki en vilji auka þjónustuframboð sitt. „Við teljum að fyrirtæki eins og Auður með okkar nálgun, sem kalla má mannlegt fjármálafyrirtæki sem hefur áhættumeðvitund og langtímamarkmið að leiðarljósi, eigi erindi inn á markað," segir Kristín.

Aðspurð hvort Auður Capital hyggi á viðskiptabankastarfsemi segir Kristín að það megi vel vera að fyrirtækið útvíkki starfsemina. Það að fara inn í einingu eins og Sparisjóð Kaupþings opni ýmsa möguleika. Þá telji forsvarsmenn Auðar að nýju ástandi, eins og nú, fylgi alltaf möguleikar en verið sé að skoða þá. Kristín tekur skýrt fram að ekkert sé enn ákveðið og enn eigi eftir að fá svar frá stjórnvöldum um hvort þau fallist á viðræður.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×