Enski boltinn

Robinho: Pele hefði gert það sama

Robinho var klár í að ganga í raðir Chelsea
Robinho var klár í að ganga í raðir Chelsea NordicPhotos/GettyImages

Brasilíumaðurinn Robinho hefur viðurkennt að hann hafi upprunalega ætlað sér að ganga í raðir Chelsea á Englandi áður en hann gekk á endanum til liðs við Manchester City.

Hann segir að Chelsea hafi skemmt fyrir sér í samningaviðræðum eftir að félagið fór að selja treyjur með nafni hans áður en samningar voru í höfn.

"Fyrsta takmark mitt var að fara til Chelsea af því það var eina félagið sem hafði lagt fram formlegt kauptilboð, en forráðamenn Real tóku illa í það að Chelsea væri farið að selja Robinho treyjur of snemma. Chelsea var líka ekki tilbúið að greiða uppsett verð og svo kom City inn á síðustu stundu með ásættanlegt tilboð," sagði Brasilíumaðurinn.

Fregnir bárust af því í gærkvöld að landi hans, goðsögnin Pele, hafi gagnrýnt Robinho fyrir að ganga í raðir City. Hinn ungi landsliðsmaður hefur ekki áhyggjur af því.

"Ég sætti mig við gagnrýni Pele af því hann er konungur knattspyrnunnar, en hann hefði gert það sama og ég ef hann hefði verið í mínum sporum. Real hafði ekki áhuga á að halda mér og notaði mig sem beitu þegar það var að reyna að landa Cristiano Ronaldo. Ég vildi ekki vera hjá félagi sem hafði ekki áhuga á að halda mér," sagði Robinho og bætti við að andstaða Real gegn þáttöku hans á Ólympíuleikunum hefði verið annar þáttur í ákvörðun hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×