Fótbolti

Rúrik kom inn á - Kári meiddur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári er hér til vinstri á myndinni að hita upp fyrirlandsleik Íslands og Lettlands í haust.
Kári er hér til vinstri á myndinni að hita upp fyrirlandsleik Íslands og Lettlands í haust. Mynd/E. Stefán
Kári Árnason kom ekkert við sögu hjá AGF í dag en hann segir í samtali við Vísi að hann hafi átt við þrálát meiðsli að stríða.

Danska deildin er nýfarin af stað eftir langt vetrarhlé en AGF gerði í dag markalaust jafntefli við Randers.

Á sama tíma tapaði Viborg fyrir Nordsjælland á heimavelli, 3-2. Rúrik Gíslason kom inn á sem varamaður í liði Viborg á 79. mínútu.

Bæði þessu lið eru í botnbaráttunni. Viborg er í næstneðsta sæti með fjórtán stig en AGF í því þriðja neðsta með 20 stig.

„Við höfum átt í vandræðum með að skora og gert núna tvö markalaus jafntefli í röð. Við fengum þó fullt af færum í báðum leikjum," sagði Kári sem hefur ekki náð að spila í þessum tveimur leikjum vegna meiðsla.

„Ég er búinn að vera meiddur allt undirbúningstímabilið og hef verið mjög óheppinn. Alltaf þegar ég jafna mig tekur eitthvað annað við. Nú síðast voru það hnémeiðsli en ég verð vonandi kominn á fullt á næstu dögum."

Hann segist þó vera afar ánægður í Árósum. „Ég hef aldrei staðið mig betur í atvinnumennskunni en á fyrri hluta tímabilsins. En ég er auðvitað orðinn langþreyttur á þessum meiðslum."

Aðspurður um stöðu sína í landsliðinu sagðist Kári ekkert hafa heyrt í Ólafi Jóhannessyni landsliðsþjálfara.

„Ég hef ekkert heyrt í honum. Ég vona bara að ég sé ekki dottinn úr myndinni því ég vil fá að spila fyrir land og þjóð. Ég vildi gjarnan heyra í honum og tel það bara sanngjarnt að þeir fylgist með mér og sjái mig spila."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×