Erlent

Suleiman kosinn forseti

Guðjón Helgason skrifar

Líbanska þingið kaus í dag Michel Suleiman, yfirmann hersins, í embætti forseta. Þar með er bundinn endir á 18 mánaða þrátefli í líbönskum stjórnmálum og komið í veg fyrir borgarastyrjöld í landinu.

Stjórnarkreppa hefur verið í Líbanon síðan þjóðstjórn landsins sprakk 2006. Landið hefur verið án forseta í hálft ár. Stjórnvöld, hliðholl vesturveldunum, og stjórnarandstaðan, undir forystu Hizbollah og annarra herskárra hópa, hafa ekki komið sér saman um nýjan forseta. Ráðherrar í ríkisstjórninni verið ráðnir af dögum eða þeim sýnd banatilræði.

Fyrri í þessum mánuði kom til götubardaga í höfuðborginni Beirút. Hizbollah liðar lögðu undir sig vesturhluta hennar. 67 féllu. Óttast var að önnur borgarastyrjöld brytist út lík þeirri sem geisaði 1975 til 1990 og kostaði ófá mannslíf.

Katarar gengu þá í milli og miðluðu málum. Samið var um að Michael Suleiman, yfirmaður líbanska hersins, yrði forseti og kaus líbanska þing hann í embættið í dag. Ný þjóðstjórn verður mynduð í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×