Erlent

Tugir fanga skotnir til bana í Burma

Óli Tynes skrifar
Her- og lögreglumenn í Burma eru harðir í horn að taka.
Her- og lögreglumenn í Burma eru harðir í horn að taka.

Hermenn skutu 36 fanga til bana í illræmdasta fangelsinu í Burma, í kjölfar óveðursins sem þar gekk yfir um helgina. Það eru mannréttindasamtökin AAPPB í Thailandi sem halda þessu fram, en þau hafa lengi þótt ein besta heimild sem finnst um ástandið í Burma.

AAPPB segja að í óveðrinu hafi þökin fokið af mörgum álmum Insein fanglsisins í Rangoon, höfuðborg landsins. Verðirnir hafi þá safnað um eittþúsund föngum saman í stóran sal. Þar hafi fangarnir kveikt eld til þess að ylja sér.

Þykkur reykur hafi borist um bygginguna og valdið mikilli skelfingu. Ástandið versnaði svo og það varð alger upplausn. Hermenn voru kallaðir til. Þeir hófu skothríð á fangana með þeim afleiðingum að 36 létu samstundis lífið og um sjötíu særðust.

Reuters fréttastofan segir að þar sem að mestu sé símasambandslaust við Burma hafi ekki tekist að fá þessa frétt staðfesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×