Erlent

420 þúsund hús hrundu í Kína í dag

Yfir 420 þúsund hús til viðbótar hrundu í eftirskjálftum sem gengið hafa yfir Kína í dag.

Yfir 67 þúsund manns hafa látið lífið og fimm milljónir eiga hvergi höfði sínu að halla eftir skjálftana sem hófust 12 maí. Jarðskjálftarnir hafa náð yfir 100 þúsund ferkílómetra svæði. Það er jafn stórt og Ísland.

Skjálftarnir sem gengu yfir í dag voru 5.7 og 5.4 á Richter kvarða. Fyrsti og stærsti skjálftinn var 7.9 stig.

Þrengingum Kínverja í Sichuan héraði er hvergi nærri lokið. Sprungur hafa komið í margar stíflur sem geta valdið enn meira tjóni ef þær bresta.

Síðast í dag urðu yfirvöld að flytja 80 þúsund manns á brott frá svæði þar sem hætta er á flóðum. Þá er einnig hætta á ferkari eftirskjálftum.

Það ríkir því bæði skelfing og örvænting á jarðskjálftasvæðunum. Kínversk stjórnvöld gera hvað þau geta til þess að hjálpa þegnum sínum. En enginn ræður við móður náttúru þegar hún er í þessum ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×