Enski boltinn

Blatter: Sagði aldrei að Ronaldo væri þræll

NordicPhotos/GettyImages

Sepp Blatter, forseti FIFA, segir að fræg ummæli hans um þrælahald í fótboltaheiminum hafi verið mistúlkuð í fjölmiðlum um daginn. Hann segist aldrei hafa beint þessum orðum beint að Cristiano Ronaldo hjá Manchester United.

Blatter tjáði sig m.a. vegna Ronaldo-málsins fræga þar sem hann vildi meina að leikmaðurinn ætti að mega fara til Real Madrid ef hann óskaði eftir því sjálfur.

"Það er of mikið nútímaþrælahald í fótboltanum þar sem leikmenn ganga kaupum og sölum hingað og þangað og við erum að reyna að bregðast við því," var haft eftir Blatter á sínum tíma.

Hann segir ummælin hafa verið tekin úr samhengi, en er enn þeirrar skoðunar að staðan á leikmannamarkaðnum sé ekki eins og best verður á kosið.

"Ég sagði aldrei að Ronaldo væri þræll, en ég talaði um þrælahald ungra leikmanna. Evrópsku félögin eru að næla sér í drengi sem eru 13,14 og 15 ára gamlir og það á ekki við um Ronaldo. Ég sagði aldrei að hann væri þræll," sagði Blatter.

Hann telur að Manchester United og Real Madrid muni komast að niðurstöðu í máli Cristiano Ronaldo.

"Þau munu leysa þetta sín á milli og við höfum ekkert að segja við því. FIFA mun ekki blanda sér í þetta mál," sagði forsetinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×