Fótbolti

Björn Bergmann: Spila áfram í gulu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Bergmann í leik með ÍA.
Björn Bergmann í leik með ÍA.

Björn Bergmann Sigurðarson sagði í samtali við Vísi í dag að ekki skemmdi fyrir að hans nýja félag í Noregi skartaði sömu litum í búningum sínum og uppeldisfélagið á Skipaskaga.

Björn skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Lilleström sem leikur í gulum og svörtum búningum, rétt eins og ÍA.

„Það er auðvitað alveg frábært og skemmir ekki fyrir," sagði hann í léttum dúr. „Annars líst mér vel á allt það sem félagið hefur upp á að bjóða. Þjálfarinn er með mjög háleit markmið fyrir félagið, völlurinn er frábær og æfingaaðstaðan afar góð."

Hann mun hefja æfingar hjá Lilleström þann 1. desember næstkomandi en Björn Bergmann verður átján ára í febrúar næstkomandi. En þrátt fyrir ungan aldur hefur hann leynt og ljóst stefnt að því að komast í atvinnumennsku.

„Ég held að þetta sé skref í rétta átt fyrir mig. Upphaflega átti ég nú ekki von á því að fara til Noregs en þegar þetta kom upp á borðið leist mér mjög vel á þennan kost."

Hann ætlar sér vitaskuld að keppa um sæti í byrjunarliðinu. „Það er ekki spurning. Þetta hefur verið strembið tímabil hjá Lilleström og við ætlum okkur að rétta úr kútnum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×