Handbolti

Róbert: Allir lögðu sig hundrað prósent fram

Henry Birgir Gunnarsson í Peking skrifar
Róbert í eldlínunni í dag.
Róbert í eldlínunni í dag. Mynd/Vilhelm
„Það er góður stígandi í liðinu og einfaldasta skýringin á þessum sigrum er sú að við æfðum mjög vel fyrir mótið og ekki síst markvisst. Það voru ekki mikil hlaup heldur alltaf bolti. Svo vorum við að æfa kerfin og stúdera andstæðingana. Við æfðum virkilega vel og allir lögðu sig hundrað prósent fram og það er að skila sér núna á vellinum," sagði Róbert Gunnarsson skömmu fyrir líklega vandræðalegasta blaðamannafund Ólympíusögunnar. Aðeins þrjár spurningar voru lagðar fram og tvær af fólki sem hafði ekki séð handbolta. Spurningarnar voru eftir því.

„Það munar mikið um að fá Didda [Ingimund Ingimundarson., innsk. blm] inn í vörnina en hann er hrikalega grimmur og er þess utan skynsamur. Það kemur ný vídd í þetta hjá okkur að fá svona aggressívan miðjumann. Annars eru allir að standa sig vel," sagði Róbert kátur en hann var ekki ánægður með Þjóðverjana í leiknum.

„Þeir ætluðu sér að myrða Snorra og það sást langar leiðir. Svo fóru þeir illa í Alex rétt eins og Rússarnir. Það er með ólíkindum að það sé ekki tekið fastar á þessu. Þeir ætluðu sér bara að stúta okkur því þeir ráða ekki við okkur. Við verðum að halda áfram að halda haus og spila okkar bolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×