Enski boltinn

Milner gengur til liðs við Aston Villa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
James Milner í leik með Newcastle.
James Milner í leik með Newcastle. Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa hefur gengið frá kaupum á James Milner frá Newcastle fyrir um tíu milljónir punda að því er kemur fram í enskum fjölmiðlum.

Milner lék tímabilið 2005-6 sem lánsmaður hjá Aston Villa og skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við félagið.

Hann gerði reyndar fjögurra ára samning við Newcastle fyrir ári síðan en fór í vikunni formlega fram á að verða settur á sölulista hjá félaginu.

Kevin Keegan, stjóri Newcastle, sagði að Milner hefði átt fyrsta skrefið í þessu ferli en lagði ríka áherslu að ákvörðunin hafi á endanum verið hans.

„Auðvitað hefði ég ekki viljað missa hann en þetta er ekki fullkominn heimur. Ég vil þó ítreka að ákvörðunin um að selja hann var mín."

„Tilboðið sem við fengum var viðeigandi fyrir mann af hans getu að mínu mati. Við vitum allir að James hefur átt erfitt uppdráttar. Hann var næstum genginn til liðs við Aston Villa á sínum tíma og var dreginn til baka."

„Hegðun hans hefur þó ávallt verið til fyrirmyndar. Hann er frábær atvinnumaður og enginn vafi um að þeir fengu frábæran leikmann í sínar raðir. Við verðum þó að halda áfram."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×