Enski boltinn

Wenger sér ekki eftir að hafa selt Bentley

NordcPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segist ekki sjá eftir því að hafa látið David Bentley fara frá Arsenal til Blackburn á sínum tíma. Bentley er nú genginn í raðir erkifjenda Arsenal í Tottenham og skoraði í sínum fyrsta leik fyrir félagið í gærkvöld.

Bentley þótti mikið efni þegar hann var hjá Arsenal á sínum tíma og stóð sig oft á tíðum ágætlega þegar hann fékk tækifæri. Hann fékk hinsvegar aldrei að sanna sig hjá félaginu en sprakk út þegar hann fór til Blackburn.

Bentley kostaði Tottenham á bilnu 15-17 milljónir punda, en Arsenal mun líklega fá um 6 milljónir af þeim peningum vegna samnings sem gerður var við söluna til Blackburn á sínum tíma.

"Það sem mér finnst skipta mestu máli er að ala upp góða knattspyrnumenn sem eiga möguleika á að eiga góðan feril. Þegar Bentley var hérna var hann að keppa við menn eins og Robert Pires og Freddie Ljungberg og á þeim tíma voru þeir betri leikmann. Bentley vildi spila meira inn á miðjunni, en þar var Dennis Bergkamp fyrir og mér fannst hann ekki tilbúinn að taka við af honum. Hann væri hinsvegar klárari í það í dag," sagði Wenger.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×