Handbolti

Þórir meiddist aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Ólafsson í leik með Lübbecke.
Þórir Ólafsson í leik með Lübbecke. Mynd/Oliver Krato

Þórir Ólafsson er óviss um hvort hann verði áfram hjá þýska handboltaliðinu Lübbecke en hann meiddist öðru sinni á æfingu í vikunni.

Þórir hefur verið frá lengst af á tímabilinu eftir að hann þríbrotnaði á viðbeini. Hann byrjaði aftur að æfa í apríl og hefur verið að komast í sitt besta form. Á þriðjudaginn meiddist hann hins vegar öðru sinni eftir að hafa lent illa eftir samstuð við félaga sinn.

„Það er þó ekkert brotið í þetta skiptið en það er samt ekki alveg komið á hreint hversu alvarleg meiðslin eru. Ég hitti lækni síðar í dag og þá veit ég vonandi meira," sagði hann í samtali við Vísi.

„Það er ljóst að ég missi af lokaleik okkar í deildinni á laugardaginn en ég gæti orðið aftur klár strax í næstu viku."

Lübbecke er sem stendur í næstneðsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og mætir Füchse Berlin í lokaumferðinni. Sigur gæti dugað til að bjarga liðinu frá falli eða tryggja því rétt til að taka þátt í umspili við lið úr B-deildinni um sæti í úrvalsdeildinni.

Samningur Þóris rennur út í lok tímabilsins og er hann ekki viss um hvort hann verði áfram hjá því á næstu leiktíð.

„Það eru einhverjar hreyfingar á því máli nú en ekkert sem er orðið öruggt. Það verður beðið með allar þessar ákvarðanir þar til það er ljóst í hvaða deild við spilum á næsta tímabili."

En sjálfur segist hann hafa áhuga á því að spila áfram með liðinu, þó svo að það falli um deild. „Við erum með ágætislið og þó svo að við myndum falla yrði stefnan örugglega tekin beint aftur upp."

Wilhelmshaven er með fjórtán stig í neðsta sæti og Minden og Lübbecke eru þar fyrir ofan, bæði með sextán stig. Essen er svo í fimmtánda sæti með sautján stig.

Tvö neðstu liðin falla í B-deildina en þriðja neðsta mætir liði úr B-deildinni bæði heima og að heiman um sæti í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×