Enski boltinn

Curbishley: West Ham þarf stöðugleika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alan Curbishley, fyrrum knattspyrnustjóri West Ham.
Alan Curbishley, fyrrum knattspyrnustjóri West Ham. Nordic Photos / Getty Images
Alan Curbishley segir að eftirmaður sinn hjá West Ham þarf að vera lengur í starfi lengur en hann var.

Curbishley var ráðinn í desember árið 2006, skömmu eftir að WH Holding keypti félagið en það var að langstærstum hluta í eigu Björgólfs Guðmundssonar.

Björgólfur á nú félagið einn eftir að hann keypti út hluta Eggerts Magnússonar.

„Á síðustu tuttugu mánuðum hefur félagið haft þrjá framkvæmdarstjóra og þrjá knattspyrnustjóra ef eftirmaður minn er talinn með," sagði Curbishley. „Það ætti að vera félaginu víti til varnaðar."

„Allir vita að stöðugleiki er lykillinn að velgengni."

West Ham vann 4-1 sigur á Blackburn um helgina og komu því fréttirnar af brotthvarfi Curbishley mörgum á óvart.

„Þetta var það síðasta sem mér datt í hug þegar ég labbaði út af vellinum á laugardaginn. Ég hlakkaði mikið til tímabilsins. En ég er stór strákur og hef verið lengi í þessum bransa. Mér fannst þetta bara ekki rétt og varð að standa fastur á mínu."

„Sama hvað hver segir þá naut ég þess að starfa hjá West Ham og mér finnst ég hafa staðið mig vel."

Curbishley hefur mikinn hug á því að halda áfram þjálfun og þá helst í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×