Enski boltinn

Joorabchian: West Ham gerði mistök í tíð Eggerts og Curbishley

NordicPhotos/GettyImages

Umboðsmaðurinn Kia Joorabchian sem gegnir stöðu ráðgjafa hjá West Ham, segir að Alan Curbishley geti að hluta til kennt sjálfum sér um það að hann sé hættur störfum hjá félaginu.

Curbishley bar við trúnaðarbresti þegar hann sagði starfi sínu lausu hjá West Ham í gær og sagði stjórn félagsins hafa tekið fram fyrir hendurnar á sér í leikmannamálum.

Joorabchian segir að Curbishley geti sjálfum sér um kennt að hluta til og segir hann og Eggert Magnússon hafa gert mistök í leikmannamálum.

"Stjórn West Ham lét leikmannamálin í hendurnar á manni sem hún hélt að væri starfi sínu vaxin og eftir það fóru hlutirnir úr böndunum," sagði Joorabchian í samtali við BBC.

Hann segir að West Ham hafi einfaldlega orðið að selja leikmenn vegna launakostnaðar sem hafi farið úr böndunum eftir að það keypti leikmenn á borð við Freddie Ljungberg, Kieron Dyer og Craig Bellamy, en þessir leikmenn gátu lítið spilað vegna þrálátra meiðsla.

Joorabchian vill meina að þetta skrifist á Alan Curbishley og Eggert Magnússon, en sagt er að launakostnaður hjá félaginu hafi farið upp í tæpar 50 milljónir punda á síðasta ári.

"Curbishley hafði mikið með það að gera þegar félagið keypti menn eins og Luis Boa Morte, Nigel Quashie, Dyer og Ljungberg. Ég held að stjórnin hafi gert sér grein fyrir því að flest þessi mistök voru gerð í tíð Eggerts Magnússonar. Það er kannski ekki beint þeim Eggerti og Curbishley að kenna, en ég hugsa að þessi kaup og þessi launakostnaður hafi ekki verið í takt við hugmyndir félagsins um að drífa klúbbinn áfram," sagði Joorabchian.

Joorabchian telur að hjá West Ham hafi einfaldlega verið of margir dýrir leikmenn og á of háum launum, sem ekki gátu komið að notum vegna meiðsla.

"Fyrst verða menn að losa sig við eitthvað af þessum leikmönnum til að losa um launagreiðslur svo þeir geti farið að kaupa leikmenn á ný. Mér finnst dapurlegt hvað hefur gerst hjá West Ham á síðasta ári," bætti Joorabchian við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×