Erlent

Ungbarnasundið skilaði sér

Óli Tynes skrifar
Vön buslinu.
Vön buslinu. MYND/Getty Images.

Tveggja ára gömul bresk telpa bjargaði sér á hundasundi þegar hún datt í innanhússsundlaug á heimili sínu. Elísabet Jelley synti að bakkanum og kallaði á móður sína.

Amanda Jelley heyrði hana kalla á sig, en gat ekki fundið hana. Hún þaut í örvæntingu fram og aftur um húsið og þegar hún sá að hurðin inn að sundlauginni var opin, lamaðist hún nær af skelfingu.

Hún þóttist viss um að hún sæi dóttur sína á kafi í lauginni. Þess í stað sá hún brosandi andlit Elísabetar þar sem hún hélt sér í bakkann. Amanda þakkar þessa björgun því að hún hefur verið með telpuna í ungbarnasundi frá því hún var átta vikna gömul.

Sundkennari hennar er sömu skoðunar. Jess Thompson segir að Elísabet geti aðeins synt stuttar vegalengdir án aðstoðar.

Það hafi hinsvegar gert gæfumuninn að hún sé vön vatninu. Óvön börn yrðu gripin skelfingu við þessar kringumstæður. Og þá væri voðinn vís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×