Real Madrid mistókst í kvöld að komast upp að hlið Barcelona á toppi spænsku deildarinnar þegar liðið steinlá 3-1 fyrir baráttuglöðum grönnum sínum í Getafe.
Juan Albin kom smáliðinu yfir strax eftir þrjár mínútur og skoraði svo aftur strax í upphafi síðari hálfleiks. Javier Saviola minnkaði muninn fyrir Real Madrid á 55. mínútu, en Ikechukwu Uche tryggði Getafe endanlega sigurinn með marki á 82. mínútu.
Sigur Getafe hefði með öllu átt að vera miklu stærri, en liðið fékk nokkur dauðafæri á lokamínútum leiksins.
Miðjumaðurinn Guti hjá Real Madrid varð í kvöld aðeins tíundi leikmaðurinn í sögu Real til að spila 500 leiki fyrir félagið, en hann vill eflaust gleyma þessum leik sem fyrst.