KR vann Val 3-2 í stórleik dagsins í Landsbankadeild kvenna. Eftir þessi úrslit er KR þremur stigum á eftir Val sem trjónir á toppi deildarinnar.
Margrét Lára Viðarsdóttir kom Val yfir eftir hálftíma leik en Hólmfríður Magnúsdóttir jafnaði í upphafi seinni hálfleiks. Hallbera Gísladóttir endurheimti svo forystuna fyrir Val.
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir jafnaði í 2-2 en sigurmarkið skoraði Olga Færset þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Þá var vítaspyrna hennar varin en Olga náði frákastinu og skoraði.