Handbolti

Ísland og Svíþjóð spila um síðasta sætið á ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert Gunnarsson verður vonandi í ham gegn Svíum í dag.
Róbert Gunnarsson verður vonandi í ham gegn Svíum í dag. Nordic Photos / AFP
Alls hafa ellefu þjóðir tryggt sér sæti í handboltakeppninni á Ólympíuleikunum í Peking en Ísland og Svíþjóð mætast í dag í hreinum úrslitaleik um tólfta og síðasta sætið á leikunum.

Um helgina fer fram undankeppni fyrir leikana í þremur riðlum en riðill Íslands fer fram í Póllandi. Heimamenn tryggðu sér í gær sæti á leikunum með því að vinna Ísland, 34-28. Pólverjar mæta Argentínumönnum í kvöld en hafa meira að segja efni á að tapa leiknum.

Sterkasti riðillinn fór fram í Frakklandi en þar hafa heimamenn tryggt sér farseðilinn til Peking ásamt Spánverjum. Noregur og Túnis gerðu góða atlögu að sæti á Ólympíuleikunum en urðu á endanum að játa sig sigruð enda eiga Frakkar og Spánverjar gríðarlega sterk handboltalandslið.

Það var nánast formsatriði að spila í þriðja riðlinum en þar komust heimamenn Króata og Rússar áfram á kostnað Japan og Alsír. Rússland vann í dag skyldusigur á Japan, 44-31, og gerði þar með endanlega út um keppnina í riðlinum.

Rétt eins og í Póllandi skipta lokaleikir dagsins í Frakklandi og Króatíu engu máli. Frakkar mæta Norðmönnum og Króatía mætir Alsír. Úrslit þessara leikja hafa enga þýðingu.

Eini leikurinn sem hefur enn einhverja þýðingu er viðureign Íslands og Svíþjóðar sem hefst klukkan 16.15 í dag og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Svíar eru með þrjú stig í riðlinum en Ísland tvö og dugar því Svíum jafntefli í dag.

Þátttökuþjóðir á ÓL:

Gestgjafar: Kína

Heimsmeistarar: Þýskaland

Evrópumeistarar: Danmörk

Sigurvegarar undankeppni Asíu: Suður-Kórea

Afríkumeistarar: Egyptaland

Ameríkumeistarar: Brasilía

Undankeppni Ólympíuleikanna:

Riðill 1: Pólland (og Svíþjóð eða Ísland)

Riðill 2: Frakkland og Spánn

Riðill 3: Króatía og Rússland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×