Fótbolti

Ólympíuörlög Messi í höndum Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi og Javier Mascherano á æfingu í Kína í dag.
Lionel Messi og Javier Mascherano á æfingu í Kína í dag. Nordic Photos / AFP

Alþjóðlegi íþróttaáfrýjunardómstóllinn komst að þeirri niðiurstöðu í dag að Barcelona væri heimilt að koma í veg fyrir að Lionel Messi leiki með argentínska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Barcelona, Schalke og Werder Bremen hefðu fulla heimild að kalla til sína leikmenn sem taka þátt í leikunum.

Forráðamenn Barcelona munu funda fljótlega til að taka ákvörðun um hvort að þeir eigi að kalla Messi heim frá Peking.

Argentína mætir Fílabeinsströndinni á morgun og er þjálfari fyrrnefnda liðsins, Sergio Batista, þess fullviss að Messi verði með í þeim leik.

„Leikmaðurinn er hér og verður með liðinu á morgun frá upphafi. Ég er líka viss um að hann verði hér út mótið," sagði Batista.

Schalke og Werder Bremen eru með tvo Brasilíumenn á leikunum, þá Rafinha og Diego.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, úrskurðaði að félögum væri skylt að sleppa öllum leikmönnum, 23 ára og yngri, til að keppa á leikunum.

Áfrýjunardómstóllinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þetta væri frekar hefð fremur en lög og því væri ekki hægt að skylda félögin til að gera þetta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×