Fótbolti

Adriano ráðlagt að biðja

Elvar Geir Magnússon skrifar
Adriano.
Adriano.

Juvenal Juvencio, forseti brasilíska félagsins Sao Paulo, hefur ráðlagt sóknarmanninum Adriano að snúa sér að Guði, hann þurfi að biðja meira. Þetta sagði hann eftir að Adriano lenti í árekstri í vikunni.

„Ég lít á þetta slys sem ákveðið merki. Adriano verður að vera í meira sambandi við Guð. Ég ætla ekki að sekta hann, ég vona bara að hann fái þá hjálp sem hann þarf," sagði Juvencio.

Fyrir ekki löngu síðan var Adriano talinn einn besti sóknarmaður heims en hefur átt í miklum vandræðum í einkalífinu og tekið skemmtanalífið fram yfir fótboltann. Hann er samningsbundinn ítalska liðinu Inter sem sendi hann heim til Brasilíu til að leita sér hjálpar.

Hann var lánaður til Sao Paulo. „Við munum sýna honum traust. Við trúum því að hann komist yfir þetta," sagði Juvencio en Adriano hefur verið duglegur að koma sér í blöðin fyrir afrek sín á skemmtistöðum.

Í vikunni varð hann síðan valdur að þriggja bíla árekstri á götu í Rio de Janeiro. Talsmaður leikmannsins segir þó að í þessum árekstri hafi áfengi ekkert komið við sögu. Enginn slasaðist illa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×