Fótbolti

Gerrard: Materazzi átti skilið að fá rautt

Brottvísun Materazzi breytti leiknum á Anfield í kvöld
Brottvísun Materazzi breytti leiknum á Anfield í kvöld NordcPhotos/GettyImages

Rafa Benitez létti af sér nokkra pressu í kvöld þegar lið hans Liverpool vann 2-0 sigur á Inter í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Benitez er þó með báða fætur á jörðinni og segir mikið eftir í einvíginu.

Liverpool-menn nýttu sér það að vera manni fleiri frá 30. mínútu í leiknum í kvöld og þeir Dirk Kuyt og Steven Gerrard tryggðu að enska liðið fer með þægilega forystu til Ítalíu fyrir síðari leikinn.

"Þeta var frábær sigur en við eigum eftir að spila annan leik svo við verðum að vera varkárir. Við erum fullir sjálfstrausts en vitum að Inter er mjög sterkt lið," sagði Spánverjinn í sjónvarpsviðtali.

"Liðið sýndi sjálfstraust og ástríðu og það er alltaf frábært að fá tvö mörk á lokamínútunum. Leikmennirnir spiluðu fyrir félagið í kvöld og við erum frábært félag," sagði Benitez.

Markaskorarinn Steven Gerrard var líka ánægður eftir leikinn, þar sem hann skoraði sitt 5. mark í 7 Evrópuleikjum á leiktíðinni.

"Þetta var stórt kvöld en það verður það ekki lengi ef við klárum ekki dæmið í síðari leiknum. Við erum sáttir við frammistöðuna í kvöld en nú er bara hálfleikur í einvíginu," sagði fyrirliðinn og vildi meina að Marcu Materazzi hefði átt skilið að vera rekinn af velli.

"Ég var ekki hissa á þessu. Hann braut tvisvar af sér og fékk réttilega gult í bæði skipti. Eftir brottreksturinn bökkuðu þeir mikið og spiluðu upp á jafntefli, en við sýndum þolinmæði sem borgaði sig að lokum," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×