Handbolti

Dagur var fyrsti kostur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis í handbolta.
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis í handbolta.

Martin Hausleitner, formaður austurríska handknattleikssambandsins, segir að Dagur Sigurðsson hafi verið fyrsti kostur í stöðu landsliðsþjálfara.

„Þetta er maður sem býr yfir reynslu úr alþjóðlegum handbolta, talar þýsku, þekkir austurríska handboltann vel og veit vel hvað hann sjálfur vill. Af þeim fimm mönnum sem voru nefndir til sögunnar var hann fyrsti kostur. Sem betur fyrir sagði hann já."

Dagur var í gær formlega kynntur til sögunnar sem nýr landsliðsþjálfari Austurríki en Evrópumeistaramótið í handbolta fer þar fram eftir tæp tvö ár. Austurríki á ekki möguleika á að komast á Ólympíuleikana í Peking í sumar, né heldur á HM í Króatíu á næsta ári.

En Austurríki verður vitanlega með á EM 2010 sem gestgjafar og hafa heimamenn vonir um að liðið, undir stjórn Dags, geti komið á óvart.

„Ég vann með mjög góðu fólki hér í Austurríki og aflaði mér mikillar reynslu hér. Það er aðalástæðan fyrir því að ég tók þetta starf að mér," sagði Dagur við austurríska fjölmiðla.

Fyrsta verkefni Dags verður að stýra austurríska landsliðinu á fjögurra liða móti síðar í mánuðinum með Þýskalandi, Svíþjóð og Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×