Fótbolti

Fabregas: Bara byrjunin

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fabregas fagnar með Aleksandr Hleb.
Fabregas fagnar með Aleksandr Hleb.

Cesc Fabregas átti hreint magnaðan leik fyrir Arsenal í kvöld þegar liðið gerði sér lítið fyrir og vann Evrópumeistara AC Milan 2-0 á San Siro.

„Þetta er draumur sem rættist. Það er ótrúlegt að hafa unnið Milan 2-0. William Gallas sagði okkur fyrir leikinn að njóta andrúmsloftsins og það gerðum við svo sannarlega," sagði Fabregas sem skoraði fyrra mark Arsenal.

„Þetta er bara byrjunin. Við erum komnir í átta liða úrslitin en höfum ekkert afrekað enn. Þetta var bara eitt skref."

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var að sjálfsögðu hæstánægður með frammistöðu sinna manna. „Ég er mjög stoltur af leikmönnum. Það hefur verið mikil pressa á okkur þar sem við höfum verið að tapa stigum í deildinni. Við létum það þó lítið á okkur fá," sagði Wenger.

„Við vorum miklu betri í þessum leik og gerðum engin mistök. Við vorum virkilega skapandi og þetta gefur okkur aukinn kraft fyrir lokasprett tímabilsins," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×