Fótbolti

Messi frá í sex vikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi gengur hér heldur niðurlútur af velli í gær.
Lionel Messi gengur hér heldur niðurlútur af velli í gær. Nordic Photos / AFP

Lionel Messi verður frá næstu sex vikurnar eða svo eftir að hann reif vöðva í læri í leiknum gegn Celtic í gær. Þetta er í fjórða skiptið á þremur árum sem hann verður fyrir álíka meiðslum.

Þar með er ljóst að Messi missir af leikjum Börsunga í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar og jafnvel af leikjum liðsins í undanúrslitum ef liðið kemst þangað.

„Hann er mikilvægur leikmaður í okkar liði og þetta er sorgarstund fyrir okkar leikmenn," sagði Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona.

Messi hlaut sömu meiðsli fyrr á tímabilinu og var hann frá keppni í desember og janúar af þeim sökum.

Hann kom inn á sem varamaður í liði Börsunga er það tapaði fyrir Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni um helgina. Fjölmiðlar gagnrýndu mjög þá ákvörðun Rijkaard að hvíla Messi og lögðu hart að honum að setja hann í byrjunarliðið í leiknum gegn Celtic.

„Læknar sögðu að það væri hætta á meiðslum fólgin í því að láta hann spila," sagði Carles Puyol um málið. „Nú sjáum við allir eftir þeirri ákvörðun. Þið verðið að leyfa læknunum og sjúkraþjálfarunum að sinna sínu starfi því þeir vita meira um þessi mál en þið," sagði Puyol og beindi orðum sínum að fjölmiðlamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×