Fótbolti

Ítalskur dómari í felur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Napoli fagna öðru marka sinna sem þeir skoruðu úr vítaspyrnu í leiknum gegn Juventus í haust.
Leikmenn Napoli fagna öðru marka sinna sem þeir skoruðu úr vítaspyrnu í leiknum gegn Juventus í haust. Nordic Photos / AFP

Mauro Bergonzi, ítalskur knattspyrnudómari, hefur verið sendur í felur af lögregluyfirvöldum þar í landi eftir að ráðist var á mann sem líktist honum.

Bergonzi dæmdi leik Napoli og Juventus í október síðastliðnum og dæmdi heimamönnum tvær vítaspyrnur í stöðunni 1-1. Napoli vann leikinn, 3-1.

„Það átti sér stað alvarlegt atvik," sagði Cesare Gussoni, formaður samtaka knattspyrnudómara á Ítalíu. „Hópur manna réðust að manni sem þeir héldu að væri knattspyrnudómari. Sá ágæti maður vinnur í banka og náði loksins að koma því til skila áður en hann mátti þola fleiri högg."

„Lögreglan mælti með því að umræddur dómari myndi hljóta vernd lögreglu og færa sig um set í tvær vikur."

Knattspyrnubullur á Ítalíu eru heldur ekki ánægðir með störf Pierlugi Collina sem sér um að úthluta dómurum leikjum til að dæma. Hann hefur til að mynda fengið byssukúlur í pósti og fengið lögreglufylgd vegna óánægju stuðningsmanna með hans störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×