Handbolti

Guðlaugur og Valdimar á leið frá Malmö

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valdimar Þórsson, leikmaður HK Malmö.
Valdimar Þórsson, leikmaður HK Malmö. Mynd/Rósa

Þeir Guðlaugur Arnarsson og Valdimar Þórsson eru á leið frá sænska handknattleiksliðinu HK Malmö eftir því sem kemur fram á heimasíðu félagsins.

Í kvöld varð það endanlega ljóst að félagið myndi falla um deild en liðinu hefur gengið skelfilega í vetur en miklar vonir voru bundnar við það í haust. Þjálfari liðsins er gamla kempan, Per Carlen.

Á heimasíðu HK Malmö segir að Valdimar þjáist af heimþrá og að það hafi komið niður á frammistöðu hans. Sjálfur vilji hann fara aftur heim til Íslands og er hann sagður ætla að gera það að tímabilinu loknu.

Félagið reiknar svo með því að Guðlaugur verði liðinu of dýr þar sem liðið er fallið um deild, auk þess sem fullyrt er að hann hafi meiri metnað en svo að leika í næstefstu deild í Svíþjóð.

Valdimar samdi við Fram síðastliðið sumar en gekk svo til liðs við Malmö skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×