Handbolti

Ragnar sennilega á leið aftur til Dunkurque

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Óskarsson.
Ragnar Óskarsson. Nordic Photos / AFP

Ragnar Óskarsson, handknattleiksmaður hjá USAM Nimes í Frakklandi, er líklega á leið aftur til síns gamla félags, Dunkurque.

Ragnar sagði í samtali við Vísi að félögin væru búin að komast að samkomulegi um félagaskiptin. Hann sé þó ekki búinn að skrifa undir neitt sjálfur og ætli því að bíða með að tjá sig frekar um þetta mál.

Ragnar varð fyrir því óláni að slíta krossbönd í hné í febrúar síðastliðnum og gekkst hann undir aðgerð vegna þessa í upphafi síðasta mánaðar.

„Aðgerðin gekk vel og er ég nú byrjaður í endurhæfingu. Þetta lítur bara vel út miðað við allt," sagði Ragnar.

Hann var meðal markahæstu leikmanna deildarinnar þegar hann meiddist en Nimes er sem stendur í sjötta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar.

Dunkurque er í fjórða sætinu en Ragnar lék með liðinu í fjögur tímabil, frá 2000 til 2004. Þá fór hann til Ivry þar sem hann lék í tvö ár þar til hann samdi við Nimes í sumar. Hann skrifaði þá undir þriggja ára samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×