Fótbolti

Úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni á Wembley í vor?

Breska blaðið Times segist hafa heimildir fyrir því að forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafi ritað Knattspyrnusambandi Evrópu bréf þar sem þess er farið á leit að úrslitaleikurinn í Meistaradeild Evrópu í vor fari fram á Wembley ef tvö ensk lið komast í úrslitaleikinn.

Úrslitaleikurinn á að fara fram í Moskvu þann 21. maí og segir Times að enskir óttist mjög að ólæti gætu brotist út á meðal enskra stuðningsmanna á erlendri grundu ef lið þarlendra mættust í úrslitum - ekki síst ef það yrðu erkifjendurnir Manchester United og Liverpool.

Sagt er að enskir hafi vakið máls á svipuðum hlutum fyrir úrslitaleikinn í Aþenu í fyrra, þar sem um tíma leit út fyrir að United og Liverpool myndu hugsanlega mætast í úrslitaleik.

Þeim beiðnum var vísað frá af Knattspyrnusambandi Evrópu, en það hefur ekki komið í veg fyrir svipaða viðleitni Englendinganna í ár.

Wembley er þó ekki eini völlurinn sem sagður er koma til greina í þessu sambandi og hafa vellir eins og Ibrox og Hampden Park í Skotlandi.

Það verður að teljast nokkuð ótrúlegt að Knattspyrnusamband Evrópu fallist á svona tillögu, enda er stutt í úrslitaleikinn og Moskvubúar hafa eytt gríðarlegum tíma og fjármunum í að undirbúa atburðinn.

Þá hefur sýnt sig á síðustu árum að leikir milli liða frá sama landi í úrslitaleik á erlendri grundu geta farið friðsamlega fram eins og aðrir leikir - eins og sást þegar Real Madrid og Valencia áttust við í París árið 2000 og ítölsku liðin Juventus og Milan á Old Trafford forðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×