Handbolti

Sigur hjá öllum Íslendingaliðunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jaliesky Garcia skoraði átta mörk fyrir Göppingen í gær.
Jaliesky Garcia skoraði átta mörk fyrir Göppingen í gær. Mynd/Vilhelm

Öll úrvalsdeildarliðin og enn fremur öll Íslendingaliðin komust í gær áfram í þriðju umferð þýsku bikarkeppninnar í handbolta.

Logi Geirsson og félagar í Lemgo féllu nokkuð óvænt úr leik er liðið tapaði fyrir Lübbecke sem leikur í B-deildinni í fyrrakvöld. Þórir Ólafsson skoraði sex mörk fyrir Lübbecke í leiknum.

Hins vegar voru flest, ef ekki öll úrslit eftir bókinni í gær þegar 25 leikir fóru fram í annarri umferð bikarkeppninnar. Öll úrvalsdeildarliðin komust áfram í næstu umferð sem og þau Íslendingalið sem eru í neðri deildunum.

Kiel vann ellefu marka sigur á Ahlener SG, 37-26, en Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel sem hefur titil að verja.

Hannover-Burgdorf, sem leikur í annarri deildinni, vann sigur á HSV Hannover, 23-19. Heiðmar Felixsson og Hannes Jón Jónsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Hannover-Burgdorf.

Minden vann góðan sigur á Bremervörde á útivelli, 28-19. Ingimundur Ingimundarson skoraði þrjú mörk fyrir Minden, þar af eitt úr víti. Gylfi Gylfason skoraði tvö en annað þeirra kom úr víti.

Grosswallstadt vann Bergischer, 30-23. Einar Hólmgeirsson lék með Grosswallstadt í leiknum en komst ekki á blað þrátt fyrir þrjár skottilraunir í leiknum.

Göppingen vann Hüttenberg, 32-25, á útivelli. Jaliesky Garcia var markahæstur í liði Göppingen og skoraði átta mörk, þar af eitt úr víti.

Gummersbach vann stórsigur á Köndringen/Teningen, 42-25. Róbert Gunnarsson var markahæstur hjá Gummersbach með sjö mörk.

Düsseldorf vann Ferndorf, 43-35. Sturla Ásgeirsson skoraði þrjú mörk fyrir Düsseldorf í leiknum.

Flensburg vann Hildesheim, 35-30, en Alexander Petersson gat ekki leikið með Flensburg vegna meiðsla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×