Erlent

Enn einn hnífabardagi í Kaupmannahöfn

Ráðist var á tvo unglingspilta í miðborg Kaupmannahafnar í gærkvöldi og þeir stungnir margsinnis með hnífum.

Sá yngri, sem var 17 ára, lést af sárum sínum. Piltarnir voru á tónleikum í Amager kvikmyndahúsinu.

Til átaka kom fyrir framan sviðið þar sem hljómsveitin Magic System tróð upp og bárust þau alla leið út fyrir kvikmyndahúsið.

Átökin leiddu til þess að tveir piltar, 17 og 18 ára, voru ítrekað stungnir með hnífum. Yngri pilturinn lést af sárum sínum, en hann hlaut alls sjö hnífsstungur.

Hinn pilturinn var stunginn tvívegis í bakið en hann er ekki í lífshættu

TV2 sjónvarpsstöðin hefur eftir sjónarvottum að gripið hafi verið til skotvopna í átökunum.

Lögregla hefur staðfest að skothylki hafi fundist á svæðinu. Íbúar á nágrenninu segjast jafnframt hafa heyrt skothvelli.

Ekki eru nema nokkrir dagar síðan Íslendingur var særður sjö stungusárum í átökum í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×