Maður sem grunaður er um að hafa beitt sambýliskonu sína grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi braut ekki sex mánaða nálgunarbann sitt gagnvart konunni, að sögn Hilmars Ingimundarson verjanda mannsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á að sex mánaða nálgunarbann mannsins yrði framlengt um þrjá mánuði. Hæstiréttur hafnaði þeirri beiðni síðastliðinn fimmtudag. Maðurinn sat í janúar í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið. Komið hefur fram að maðurinn braut nálgunnarbannið með því að hafa samband við konuna.
Ákærði er talinn hafa beitt sambýliskonu sína ofbeldi en myndir og myndbönd sýna merki um miklar barsmíðar. Maðurinn fékk ókunnuga karlmenn til að eiga samræði við konuna gegn hennar vilja sem hann myndaði gjarnan myndaði. Rannsókn málsins teygir anga sína út fyrir landsteinana og hefur lögreglan þurft að leita aðstoðar lögregluyfirvalda í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
,,Hann braut ekki nálgunarbannið eins og verið er að tala um. Hún hafði samband við hann að fyrra bragði. Hann var bara að svara því. Það er ekkert annað. Það hlýtur að gilda jafnt yfir hana að hafa ekki samband við hann eins og hann að hafa samband við hana," segir Hilmar og bætir við að þau þurfi að hafa ákveðin samskipti vegna sameiginlegra eigna.
Hilmar og maðurinn eru sammála niðurstöðu Hæstaréttar. ,,Það er ekki þörf á nálgunarbanni."
Hilmar segir sig og skjólstæðing sinn vera sammála því að umfjöllun um dóm Hæstaréttar og málið hafi verið einhliða. ,,Við þekkjum nákvæmlega hvað hefur komið fram án þess að ég vilji fara nánar út í það þá var hún með alvarlegar ásakanir í hans garð sem reyndust vera ósannar. Það var tiltekið mál sem var rannsakað sérstaklega í tengslum við þetta mál sem reyndist vera algjör uppspuni hjá henni. Sá hluti rannsóknar lögreglurnar var felldur niður," segir Hilmar sem vildi ekki greina nánar frá viðkomandi máli.
,,Það er forkastanlegt að réttargæslumaðurinn sé að tjá sig um málið með slíkum hætti á meðan að það er í rannsókn," segir Hilmar og vísar til orða Þórdísar Bjarnadóttur, réttargæslumanns konunnar, í fjölmiðlum. Þórdís hefur hefur meðal annars sagt að maðurinn hafi beitt konuna afar grófu ofbeldi og að hún lifi í ótta eftir að áframhaldandi nálgunarbanni var hafnað.
Hilmar veltir fyrir sér hvað talskonur Kvennaathvarfsins og Stígamóta viti um málið. ,,Þær taka einhverja afstöðu en þekkja ekki málið í grundvallaratriðu. En þetta er siður. Það er bara hrópað úlfur úlfur. Þetta er einhliða söngur sem fer af stað sem almenningur virðist stundum taka undir."