Handbolti

Norskir handboltakappar handteknir í París

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarte Myrhol, leikmaður norska landsliðsins.
Bjarte Myrhol, leikmaður norska landsliðsins. Nordic Photos / AFP
Þeir Frank Löke og Bjarte Myrhol lentu í kröppum dansi í París á aðfaranótt mánudagsins er þeim var haldið næturlangt á lögreglustöð þar í borg.

Norska landsliðið keppti um helgina í undankeppni Ólympíuleikanna í Peking og eftir leiki helgarinnar héldu þeir Löke og Myrhol út á lífið.

Þess má geta að Norðmenn komust ekki á Ólympíuleikana en eiga leik gegn Úkraínu um helgana í undankeppni HM 2009.

Þegar þeir yfirgáfu ónefnda krá um nóttina rakst annar þeirra í hliðarspegil á bifreið. Skömmu síðar mættu lögregluþjónar á svæðið og handtóku þá. Þeir eru báðir krúnurakaðir og héldu lögreglumennirnir að þeir væru nýnasistar.

Þar sem þeir Myrhol og Löke töluðu ekki frönsku og lögreglumennirnir töluðu ekki ensku þurftu þeir að dúsa á stöðinni um nóttina. Þeim var þó ekki haldið í fangelsi eins og Löke sjálfur orðaði það.

Það var ekki fyrr en landsliðsfélagi þeirra, Alexander Buchmann, mætti á svæðið og útskýrði málið fyrir lögregluþjónunum. Buchmann leikur með Ivry í frönsku úrvalsdeildinni og talar því góða frönsku.

„Þetta var ekki skemmtileg lífsreynsla," sagði Myrhol. „Við gerðum ekkert af okkur. Ef við kynnum frönsku og værum með síðara hár hefði ekki þurft að koma til þessa."

Báðir segjast þeir búast við að verða hafðir að háði og spotti landsliðsfélaga sinna. „Okkur verður ekki aftur treyst til að fara út á lífið án fylgdar," sagði Löke í léttum dúr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×