Handbolti

Skyldusigur á Argentínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði níu mörk fyrir Ísland í dag og var markahæstur.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði níu mörk fyrir Ísland í dag og var markahæstur. Nordic Photos / AFP

Ísland vann í dag skyldusigur á Argentínu, 36-27, í fyrsta leik liðanna í undankeppni Ólympíuleikanna í Peking.

Ísland komst í 2-0 forystu en náði ekki að hrista lið Argentínu almennilega af sér fyrr en í síðari hálfleik. Sóknarleikur liðsins var ágætur lengst af en varnarleikurinn hrökk ekki í gang fyrr en í síðari hálfleik.

Argentína spilaði lengst af betur en menn áttu von á og átti íslenska vörnin oft í miklum vandræðum með sóknarmenn liðsins. Birkir Ívar Guðmundsson átti góðan leik og varði fimmtán skot og Hreiðar Guðmundsson átti svo ágæta innkomu undir lok leiksins.

Íslensku leikmennirnir voru svolítið ryðgaðir til að byrja með en eftir því sem Argentínumennirnir þreyttust gengu Íslendingar á lagið.

Á morgun mætir Ísland Póllandi og ljóst að þar verður verkefnið mun erfiðara. Það mætti líta á þennan leik sem ágæta æfingu en Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari getur notað þennan leik til að skerpa á leik liðsins, sérstaklega varnarleiknum.

Leikurinn var í beinni lýsingu á Vísi og má lesa lýsinguna hér fyrir neðan.

Tölfræði leiksins:

Mörk Íslands:

Guðjón Valur Sigurðsson 9 (11)

Snorri Steinn Guðjónsson 7/1 (7/1)

Arnór Atlason 5 (6)

Ólafur Stefánsson 4/2 (6/2)

Róbert Gunnarsson 4 (6)

Einar Hólmgeirsson 3 (4)

Alexander Petersson 2 (3)

Vignir Svavarsson 1 (2)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 1 (2)

Sigfús Sigurðsson (1)

Skotnýting: Skorað úr 36 af 48 skotum (75%)

Varin skot:

Birkir Ívar Guðmundsson 15 (34/4, 44%)

Hreiðar Guðmundsson 2 (10/1, 20%)

Vítanýting: Skorað úr 3 af 3 skotum.

Fiskuð víti: Róbert 2, Guðjón Valur 1 og Snorri Steinn 1.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 11 (Guðjón Valur 4, Snorri Steinn 1, Arnór 1, Róbert 1, Einar 1, Alexander 1, Vignir 1 og Ásgeir Örn 1).

Utan vallar: 10 mínútur.

Markahæstir hjá Argentínu:

Eric Gull 8/3

Andres Kogovsek 5/2

Mariano Castro 4

Vítanýting: Skorað úr 5 af 6.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 3

Utan vallar: 8 mínútur.

Bein lýsing:

17.24 Ísland - Argentína 35-25

Þessar lokamínútur leiksins er það sem kallað er „garbage time" í NBA-körfuboltanum enda er íslenska liðið löngu búið að tryggja sér sigur í þessum leik.

17.15 Ísland - Argentína 30-20

Argentína hefur ekkert skorað í sex mínútur en Hreiðar Guðmundsson hefur komið vel inn í leikinn og varið fyrstu tvö skotin sín. Ólafur Stefánsson fær einnig að hvíla síðustu þrettán mínútur leiksins.

17.10 Ísland - Argentína 29-20

Ísland hefur afskaplega lítið fyrir sínum mörkum þessa stundina en lítið gengur hjá Argentínu í sóknarleik liðsins.

17.02 Ísland - Argentína 25-18

Arnór Atlason hefur látið til sín taka og skorað þrjú síðustu mörk íslenska liðsins sem er óðum að sigla fram úr Argentínu.

16.59 Ísland - Argentína 23-17

Íslenska vörnin átti í stökustu vandræðum en eftir að hún skipti í 3-2-1 leikkerfið hefur gengið betur að halda aftur af sóknarmönnum Argentínu.

16.53 Ísland - Argentína 21-15

Snorri Steinn skoraði fyrsta mark Íslands í síðari hálfleik, sitt sjötta í leiknum og það fyrsta með langskoti. Argentínumenn hafa þó fylgt vel á eftir.

16.49 Ísland - Argentína 19-13

Síðari hálfleikur er hafinn og Birkir Ívar varði fyrstu tvö skot Argentínumanna og Ísland fékk boltann.

16.41

Þess má geta að ef tvö eða fleiri lið verða jöfn að stigum að lokinni riðlakeppninni ræðst árangur í innbyrðisviðureignum. Það þýðir að ef sú staða að Ísland, Svíþjóð og Pólland verða öll með fjögur stig að lokinni riðlakeppninni skiptir engu máli hversu stóran sigur liðin vinna á Argentínu.

Mörk Íslands:

Guðjón Valur Sigurðsson 5 (6)

Snorri Steinn Guðjónsson 5/1 (5/1)

Róbert Gunnarsson 4 (4)

Ólafur Stefánsson 2 (3)

Alexander Petersson 2 (3)

Arnór Atlason 1 (2)

Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 9 (22/3, 41%)

16.38 Ísland - Argentína 19-13 hálfleikur

Kominn hálfleikur í Póllandi. Sóknarleikur íslenska liðsins hefur verið ágætur eins og tölurnar bera með sér en liðið þarf að gera mun betur í varnarleiknum. Spænsku dómararnir hafa verið duglegir að flauta og fjórir íslenskir leikmenn fengu tveggja mínútna brottvísun í síðari hálfleik.

Birkir Ívar byrjaði vel í fyrri hálfleik en varði lítið á síðari stundarfjórðungnum.

16.34 Ísland - Argentína 17-13

Enn tekst íslenska liðinu ekki að hrista af sér sprækt lið Argentínu. Ísland hefur fengið þrettán mörk á sig til þessa sem getur ekki talist gott gegn veikasta andstæðingi riðilsins.

16.28 Ísland - Argentína 14-11

Argentínumenn hafa tekið leikhlé og ætla sjálfsagt að freista þess að minnka muninn enn frekar.

16.26 Ísland - Argentína 14-10

Argentínumenn eru að mæta sterkari til leiks heldur en marga grunaði. Liðið spilar fínan sóknarleik og á íslenska vörnin í stökustu vandræðum með sóknarmenn Argentínu. Ísland komst í fimm marka forystu, 13-8, en Argentína skoraði þá tvö mörk í röð.

16.18 Ísland - Argentína 9-6

Argentína hefur skorað þrjú mörk gegn einu íslensku marki. Ólafur Stefánsson hefur verið tekinn ítrekað úr umferð og hefur hinum sóknarmönnum Íslands gengið illa að leysa það.

16.12 Ísland - Argentína 8-3

Íslenska vörnin heldur vel og Birkir Ívar stendur sig vel og hefur varið sjö skot í leiknum. Alexander misnotaði hraðaupphlaup en það kom ekki að sök, staða íslenska liðsins er góð.

16.09 Ísland - Argentína 5-3

Birkir Ívar hefur varið þrjú skot til þessa og það hefur skilað tveimur hraðaupphlaupsmörkum. Spænska dómaraparið hefur verið afar gjarnt á að flauta á íslenska liðið þegar það er í vörn. Argentína hefur skorað tvö mörk úr vítum.

16.06 Ísland - Argentína 4-2

Íslenska sóknin byrjar vel en þurfa að stoppa betur í götin í sínum varnarleik.

16.02 Ísland - Argentína 1-0

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fyrsta mark íslenska liðsins úr horninu eftir sendingu Róberts Gunnarssonar. Ísland vann svo boltann aftur í fyrstu sókn Argentínu.

16.01 Ísland - Argentína 0-0

Leikurinn er hafinn og byrjaði íslenska liðið með boltann.

15.58

Nú er verið að leika íslenska þjóðsönginn og taka flestir leikmannanna vel undir.

15.40

Argentína öðlaðist þátttökurétt í undankeppni ÓL með því að verða í öðru sæti í Mið- og Suður-Ameríkuleikunum í fyrra. Argentína varð meistari þrisvar í röð frá árunum 2000 til 2004 en eftir HM í fyrra hætti þjálfari liðsins, Mauricio Torres. Eduardo Gallardo tók við starfi hans og hefur verið að byggja upp nýtt lið þar sem hann stólar á reynslumikla leikmenn í bland við unga og efnilega.

Sjö leikmenn argentínska landsliðsins eru á mála hjá evrópskum félögum.

15.36

Argentína hefur oft náð að koma sterkum andstæðingum sínum á óvart í gegnum tíðina. Minnistæðasta afrekið þegar Argentínumenn unnu verðandi heimsmestara Króata, 30-29, á HM í Portúgal árið 2003. Degi síðar náði liðið jafntefli gegn Rússum.

Fáir leikmenn eru enn með landsliðinu enn þann daginn í dag en langþekktasti leikmaður liðsins er Eric Gull, leikmaður Barcelona. Hann á langan feril að baki og hefur leikið með félögum í Svíþjóð, Frakklandi, Túnis og Rússlandi.

Hann er 34 ára gamall og er einnig með svissneskan ríkisborgararétt. Honum sinnaðist við landsliðsþjálfara Argentínu árið 2006 og tók ekki þátt í HM í Þýskalandi í fyrra er liðið varð í sextánda sæti. Eftir það var rætt um að hann myndi spila með svissneska landsliðinu en aldrei varð neitt úr því.

15.25

Hér verður fylgst með leik Íslands og Argentínu sem hefst klukkan 16.00. Ísland má alls ekki við því að tapa leiknum í dag og þarf að forðast að falla í þá gryfju að vanmeta andstæðinginn.

Alls fer undankeppni fram í þremur riðlum en efstu tvö liðin í riðlunum þremur komast til Peking. Ísland keppir í Póllandi ásamt Svíþjóð og Argentínu auk gestgjafanna. Síðar í dag mætast Pólland og Svíþjóð.

Leikmannahópur Íslands:

Markverðir:

Hreiðar Guðmundsson, Sävehof

Birkir Ívar Guðmundsson, Lübbecke

Aðrir leikmenn:

Alexander Petersson, Flensburg

Arnór Atlason, FC Köbenhavn

Ásgeir Örn Hallgrímsson, GOG

Einar Hólmgeirsson, Flensburg

Guðjón Valur Sigurðsson, Gummersbach

Ingimundur Ingimundarson, Elverum

Ólafur Stefánsson, Ciudad Real

Róbert Gunnarsson, Gummersbach

Sigfús Sigurðsson, Ademar Leon

Snorri Steinn Guðjónsson, GOG

Sturla Ásgeirsson, Århus GF

Vignir Svavarsson, Skjern




Fleiri fréttir

Sjá meira


×